9 Desember 2017 10:00
Fullorðin kona varð fyrir því óláni í vikunni að bíl hennar var stolið á bifreiðastæði við verslunarmiðstöð á höfuðborgarsvæðinu. Hún tilkynnti málið strax símleiðis til lögreglunnar og kom í kjölfarið á lögreglustöð og lagði fram formlega kæru. Konan var sjálf með lykilinn að bílnum meðferðis og staðfesti jafnframt að aukalykillinn væri á öruggum stað á heimili hennar. Þetta var því nokkur ráðgáta, en málið var hið bagalegasta að öllu leyti eins og gefur að skilja. Ekki bætti heldur úr skák að jólagjafir voru í bílnum þegar þjófurinn lét til skarar skríða. Við brottför frá lögreglustöðinni var þó ákveðið að konan myndi snúa aftur á bifreiðastæðið, leita enn betur að bílnum og staðfesta svo endanlega að hann væri horfinn. Ekki liðu margar mínútur uns aftur var hringt i lögregluna og tilkynnt að nú væri bíllinn kominn í leitirnar og jólagjafirnar sömuleiðis. Skýringin á „þjófnaðinum” reyndist einfaldlega vera sú að bílnum var aldrei stolið, heldur hafði konan einfaldlega gleymt því að lokinni innkaupaferðinni hvar hún lagði bílnum og síðan gert ráð fyrir hinu versta!
Það er ekki síst í aðdraganda jólanna sem lögreglan fær tilkynningar sem þessar um nytjastuldi, sem reynast byggðar á misskilningi. Við minnum því fólk á að leita af sér allan grun við slíkar aðstæður og að passa upp á að jólastressið taki ekki yfir. Rétt er að árétta sérstaklega að í gegnum árin hafa bæði karlar og konur á ýmsum aldri lent í því að týna bílnum sínum og leitað til lögreglunnar af þeirri ástæðu.