3 Maí 2011 12:00

Lögreglan var kölluð að húsi á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöld eftir að tilkynning barst um innbrot. Á vettvangi voru engin sjáanleg merki um innbrot en tilkynnandi, sem jafnframt var húsráðandi, var þó viss í sinni sök þegar hann tilkynnti um glæpinn. Málavextir voru þeir að einhver hafði stolið svokölluðum flakkara úr íbúðinni. Tækið var hinsvegar fundið þegar lögreglan kom á staðinn og reyndist ekki hafa verið stolið því það fannst í stofusófanum á heimilinu. Húsráðandi, sem var í miður góðu ástandi, hafði gleymt að leita af sér allan grun áður en hann óskaði eftir lögregluaðstoð. Við svo búið var farið af vettvangi en það skal samt áréttað að það er betra að hringja einu sinni of oft í lögregluna en einu sinni of sjaldan.