18 Desember 2020 15:30

Sex voru handteknir í aðgerðum lögreglunnar nýverið þar sem sjónum var beint að barnaníði á netinu og vændi. Fjórir voru handteknir grunaðir um að hafa haft barnaníðsefni í sinni vörslu, en rannsóknir málanna eru unnar í samvinnu við Europol og Interpol. Og tveir voru handteknir vegna gruns um kaup á vændi, auk þess sem afskipti voru höfð af nokkrum til viðbótar af sömu ástæðu. Alls eru þó á fjórða tug manna grunaðir um kaup á vændi og munu þeir hafa réttarstöðu sakbornings. 

Fyrrnefndar aðgerðir, sem stóðu yfir í allmarga daga, snerust um barnaníð á netinu, auglýsingar um vændi á netinu og framboð þess á Íslandi, en að þeim komu Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu, embætti ríkislögreglustjóra, Europol og Interpol. 

Við minnum á upplýsingasíma lögreglu 800 5005. Í hann má hringja nafnlaust til að koma á framfæri upplýsingum um skipulagða brotastarfsemi, eða önnur brot sem fólk hefur vitneskju um. Ábendingum um brot má jafnframt koma á framfæri í einkaskilaboðum á fésbókarsíðu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.