14 Júní 2019 12:26

Þrír eru í haldi Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í þágu rannsóknar hennar á skipulagðri brotastarfsemi, en þremenningarnir, sem voru handteknir fyrr í vikunni, voru úrskurðaðir í gæsluvarðhald til 19. júní á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Rannsókn lögreglu snýr m.a. að fíkniefnamisferli og peningaþvætti, en ráðist var í þrjár húsleitir vegna þessa og var um umfangsmiklar aðgerðir að ræða. Rannsókn málsins hefur staðið yfir undanfarnar vikur, en hinir handteknu eru á fertugs- og fimmtugsaldri. Ekki er hægt að veita frekari upplýsingar um málið að svo stöddu.

Þess má geta að fjórir aðrir eru í haldi lögreglu í óskyldu máli sem einnig snýr að skipulagðri brotastarfsemi, en þeir voru handteknir í síðustu viku og úrskurðaðir í gæsluvarðhald eins og áður hafði verið greint frá.

Fyrrnefndar aðgerðir eru liður í baráttu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu gegn skipulagðri brotastarfsemi.

Við minnum á upplýsingasíma lögreglu 800 5005. Í hann má hringja nafnlaust til að koma á framfæri upplýsingum um skipulagða brotastarfsemi, eða önnur brot sem fólk hefur vitneskju um. Ábendingum um brot má jafnframt koma á framfæri í einkaskilaboðum á fésbókarsíðu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.