26 Júní 2019 11:42

Þrír voru úrskurðaðir í áframhaldandi gæsluvarðhald til 18. júlí á grundvelli almannahagsmuna að kröfu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í þágu rannsóknar hennar á skipulagðri brotastarfsemi. Mennirnir voru handteknir í viðamiklum aðgerðum lögreglunnar fyrr í mánuðinum, en rannsóknin snýr m.a. að framleiðslu fíkniefna og peningaþvætti. Alls voru sjö handteknir í aðgerðunum og ráðist var í níu húsleitir. Í framhaldinu voru fjórir úrskurðaðir í gæsluvarðhald, en einum þeirra hefur nú verið sleppt út haldi.

Fyrrnefndar aðgerðir eru liður í baráttu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu gegn skipulagðri brotastarfsemi.

Við minnum á upplýsingasíma lögreglu 800 5005. Í hann má hringja nafnlaust til að koma á framfæri upplýsingum um skipulagða brotastarfsemi, eða önnur brot sem fólk hefur vitneskju um. Ábendingum um brot má jafnframt koma á framfæri í einkaskilaboðum á fésbókarsíðu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.