26 Apríl 2013 12:00

Undanfarin misseri hefur lögreglan í auknum mæli beint sjónum sínum að skipulagðri glæpastarfsemi á Íslandi. Hópur lögreglumanna frá lögregluliðunum á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum hefur helgað sig þessu verkefni frá árinu 2011, en þá var fjármagni veitt sérstaklega til að bregðast við og spyrna fótum gegn slíkri starfsemi. Önnur lögregluembætti sem og tollyfirvöld hafa einnig lagt baráttunni lið, en árangurinn af henni var kynntur á blaðamannafundi lögreglunnar á þriðjudag.

Þar kom m.a. fram að lagt hefur verið hald á töluvert magn af fíkniefnum og vopnum. Fjölmargir hafa verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald í þágu rannsóknar mála, en hinir sömu hafa setið í varðhaldi sem nemur um 1200 dögum. Aðgerðirnar hafa beinst gegn svokölluðum vélhjólagengjum (t.d. Outlaws og Hells Angels), en mat lögreglu er að þær hafi skilað góðum árangri. Lögreglan hefur gert gengjunum erfitt fyrir með öflugu eftirliti og hefur meðlimum þeirra fækkað, sem er góðs viti. Þá hefur fjöldi refsimála verið rekinn fyrir dómstólum í kjölfar afskipta lögreglu af hópum og einstaklingum, sem taldir eru tengjast skipulagðri glæpastarfsemi. Í mörgum þessara mála hafa þungir fangelsisdómar gengið.

Lögreglan fylgist áfram með starfsemi gengjanna, en í vetur hefur hún ennfremur kortlagt vændisstarfsemi eins og hún birtist á netinu. Þetta hefur leitt til þess að fjölmörg slík mál eru nú til rannsóknar. Vegna þeirra hafa um sextíu vændiskaupendur verið yfirheyrðir eða mætt til skýrslutöku hjá lögreglu. Rætt hefur verið við allnokkrar vændiskonur, en mál þeirra eru m.a. skoðuð m.t.t. mansals.