10 Apríl 2022 21:26

Uppfært klukkan 14:10

Sérsveit ríkislögreglustjóra æfði í dag viðbrögð við hryðjuverkaógn á höfuðborgarsvæðinu. Fór æfingin fram í formi leitar að gervisprengju sem leiddi viðbragðsaðila í yfirgefið hús á höfuðborgarsvæðinu og að lokum út í Viðey þar sem æfingunni lauk með að „glæpamenn“ voru handsamaðir og hlúð var að „slösuðum“. Æfingin fór vel fram og án vandkvæða.

Vert er að taka fram að samkvæmt skýrslu greiningardeildar ríkislögreglustjóra er hættustig hryðjuverka á Íslandi metið lágt.

Alls tóku um 80 einstaklingar þátt í æfingunni.

———————————————————————————————————-

Mánudaginn 11.apríl, milli klukkan 7:00 og 14:00 fer fram æfing á vegum sérsveitar ríkislögreglustjóra í samvinnu við björgunarsveitina Ársæl, Landhelgisgæsluna, Lögregluna à höfuðborgarsvæðinu og Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu.

Æfingin fer fram á nokkrum stöðum á höfuðborgarsvæðinu og gæti almenningur orðið var við viðbúnað viðbragðsaðila vegna hennar. Engar lokanir verða vegna æfingarinnar og ætti truflun vegna hennar að vera í lágmarki.

Nánari upplýsingar um staðsetningar og viðfangsefni æfingarinnar verða ekki veittar fyrr en að henni lokinni.

Nánari upplýsingar veitir,
Gunnar Hörður Garðarsson, samskiptastjóri embættis ríkislögreglustjóra.
Tölvupóstur: gunnarhg@logreglan.is