1 Nóvember 2012 12:00

Það er örugglega fátítt að stillt sé upp í myndatöku eftir árekstur og að ökumenn og farþegar sitji þá fyrir brosandi. Sú var þó raunin í Grafarvogi í gærkvöld eftir aftanákeyrslu á gatnamótum Strandvegar og Hallsvegar. Sem betur fer sakaði engan í óhappinu en einn farþeganna kvartaði þó undan einhverjum eymslum í baki, en viðkomandi var hvattur til að leita læknis. Skemmdir voru sjáanlegar á öðrum bílnum en ekki hinum. Ástæða myndatökunnar var hins vegar eindregin ósk bæði ökumanna og farþega um að fá mynd af sér til birtingar á fésbókarsíðu lögreglunnar. Það var auðsótt mál um leið og hinir sömu voru minntir á að fara varlega í umferðinni.

Kátir og kurteisir piltar í Grafarvogi.