28 Mars 2023 09:37
Að venju var sitthvað að fást við á helgarvaktinni á höfuðborgarsvæðinu, en tuttugu ökumenn voru teknir fyrir ölvunar- og/eða fíkniefnaakstur. Fimm þeirra höfðu þegar verið sviptir ökuleyfi, en auk þess stöðvaði lögreglan för þriggja annarra ökumanna sem höfðu sömuleiðis verið sviptir ökuleyfi og eins sem hefur aldrei öðlast ökuréttindi. Tilkynnt var um átta líkamsárásir, þar af tvær alvarlegar, og þá var farið í tvö útköll vegna heimilisofbeldis. Eitt rán var framið í umdæminu um helgina. Fimm innbrot voru tilkynnt til lögreglu, tvö í fyrirtæki og þrjú í bifreiðar. Þá voru sjö umferðarslys tilkynnt til lögreglu á sama tímabili.