8 Apríl 2024 14:45
Að vanda var nóg að gera á helgarvaktinni, en aðstoða þurfti ýmsa sem voru í miður góðu ástandi. Níu líkamsárásir voru enn fremur tilkynntar til lögreglu, þar af tvær alvarlegar. Eitthvað var um þjófnaðarmál, en m.a. var brotist inn í geymslur í tveimur fjölbýlishúsum í borginni. Tveir menn voru grunaðir um að selja fíkniefni og voru þeir báðir handteknir, auk þess sem stöðvuð var ein kannabisræktun í heimahúsi.
Tólf voru teknir fyrir ölvunar- og/eða fíkniefnaakstur og nokkrum til viðbótar var einnig gert að hætta akstri, en hinir sömu höfðu þegar verið sviptir ökuleyfi eða aldrei öðlast ökuréttindi. Hraðakstur kom líka áfram við sögu, en grófasta hraðakstursbrotið átti sér stað á Reykjanesbraut í Kópavogi í gærmorgun þar sem bifreið mældist á 158 km hraða. Ökumaðurinn, 18 ára stúlka, var færð á lögreglustöð og svipt ökuréttindum til bráðabirgða. Sekt fyrir slíkan hraðakstur er 250 þúsund kr. Með hækkandi sól hefur borið á auknum hraðakstri og þar hafa ungir ökumenn komið töluvert við sögu, líka stúlkur. Undanfarið hafa minnst fjórar aðrar stúlkur, 17 og 18 ára, verið staðnar að hraðakstri, en ætla má að hver þeirra sé að borga um 100 þúsund kr. í sekt.
Hraðasektir koma því hressilega við pyngjuna, ekki síst hjá ungu fólki, en það er vonandi að stúlkurnar, sem og aðrir sem hafa verið staðnir að hraðakstri, læri sín lexíu og aki framvegis á löglegum hraða.