30 Maí 2022 15:30

Það var sitthvað að fást við á helgarvaktinni á höfuðborgarsvæðinu enda ekki allir til fyrirmyndar þrátt fyrir blíðviðrið. Þannig voru tuttugu og sjö ökumenn teknir fyrir ölvunar- og fíkniefnaakstur í umdæminu. Einnig var nokkuð um hraðakstur og t.d. var einn ökumaður stöðvaður eftir að bíll hans mældist á 88 km hraða þar sem leyfður hámarkshraði er 30. Ökumaðurinn var færður á lögreglustöð og sviptur ökuréttindum til bráðabirgða, en viðkomandi á yfir höfði sér ákæru vegna brotsins.

Af öðrum verkefnum helgarvaktarinnar má nefna að tíu líkamsárásir voru tilkynntar til lögreglu, þar af ein alvarleg. Þá var farið í fimm útköll vegna heimilisofbeldis og tvö vegna innbrota.

Loks má nefna að undanfarna daga hefur lögreglan haft afskipti af nálægt fimmtíu ökumönnum, sem óku á bílum búnum nagladekkjum. Sektin fyrir hvert dekk er 20 þúsund og því kemur hún vel við pyngjuna hjá hinum sömu. Ökumenn, sem enn eru á ökutækjum búnum nagladekkjum, eru hvattir til að kippa því í lag hið snarasta svo komast megi hjá sektum.