20 Júní 2022 11:54

Það var í mörg horn að líta á helgarvaktinni á höfuðborgarsvæðinu, en tuttugu og þrjár líkamsárásir voru tilkynntar til lögreglu, þar af þrjár alvarlegar. Þá var farið í fjórtán útköll vegna heimilisofbeldis. Fjögur innbrot voru tilkynnt um helgina og fimm þjófnaðarmál þar að auki.

Tuttugu og níu ökumenn voru teknir fyrir ölvunar- og fíkniefnaakstur í umdæminu um helgina. Þrír ökumenn voru staðnir að því að aka á bifreiðum búnum nagladekkjum og þá voru höfð afskipti af á annan tug ökutækja sem voru ýmist ótryggð og/eða óskoðuð.

Útköll vegna fólks sem var til ama af ýmsum öðrum ástæðum voru að venju fjölmörg, en verða ekki tíunduð hér sérstaklega.