22 Ágúst 2022 14:47
Að venju var í mörg horn að líta á helgarvaktinni á höfuðborgarsvæðinu, en fimmtán líkamsárásir voru tilkynntar til lögreglu, þar af þrjár alvarlegar. Þá var farið í sjö útköll vegna heimilisofbeldis. Þrettán innbrot voru tilkynnt um helgina. Sjö þeirra voru í bifreiðar, fjögur í fyrirtæki og tvö í geymslur. Eitt rán var framið í umdæminu. Nítján ökumenn voru teknir fyrir ölvunar- og fíkniefnaakstur.
Rétt er að nefna að Menningarnótt fór mjög vel fram að langmestu leyti. Flestir fóru til síns heima eftir flugeldasýninguna og gekk vel að stýra umferðinni úr miðborginni. Er leið á aðfaranótt sunnudags fór þó að síga á ógæfuhliðina og var þá mikill erill hjá lögreglu vegna allskonar mála. Fangageymslur lögreglustöðvarinnar á Hverfisgötu fylltust og þurfti líka að grípa til vistunar í fangaklefum á lögreglustöðinni í Hafnarfirði.