28 Febrúar 2019 16:02

Lögregla og svæðisstjórn á svæði 3 fundaði í dag með fulltrúum straumvatnsbjörgunarhóps Björgunarfélags Árborgar, kafara Sérsveitar ríkislögreglustjóra, kafara Landhelgisgæslu, fulltrúum Brunavarna Árnessýslu og  fulltrúum Kranaþjónustu JÁVERK sem á Selfossi.

Á fundinum var ákveðið að gera tilraun til fjölgeislamælinga á dýpt og lögun gjárinnar neðan við Ölfusárbrú með það í huga að staðsetja ökutækið í gjánni.   Aðgerð sem þessi hefur ekki verið reynd áður í gjánni en nokkuð gott yfirlit yfir dýpt hennar með punktmælingum er til.

Aðgerðin þarfnast nokkurs undirbúnings og þarf að fara saman að veðurfarslegar aðstæður séu góðar og hæfilegt rennsli í ánni. Við fyrstu skoðun sýnist mönnum að mögulegt verði að gera þetta um miðja næstu viku gangi veðurspá eftir hvað varðar hitastig og úrkomu.

Framhald aðgerða neðan við brúna byggir á því hvaða árangur næst með þessum mælingum en fyrir liggur að lögregla mun ekki heimila köfun í gjánni vegna þeirrar áhættu sem í henni fælist.

Í dag leita björgunarsveitarmenn á bátum á ánni og sama lag verður haft við á morgun en áformað er að fínkemba svæðið með stórum hóp leitarmanna um komandi helgi. Þá munu Landhelgisgæslumenn fljúga þyrlu  yfir leitarsvæðið á eftirlitsferðum sínum óháð öðrum leitaraðgerðum.