17 Ágúst 2020 11:03

Laugardaginn 15. ágúst kl. 13:36 var tilkynnt um umferðarslys á þjóðvegi 1, skammt vestan við Stigá í Austur Skaftafellssýslu.   Þar féll maður á bifhjóli sínu, rann nokkra vegalengd eftir veginum og lenti framan á bifreið, sem kom úr gagnstæðri átt, og lést. Tildrög slyssins eru til rannsóknar og er ekki að vænta frétta af því að sinni.

Hraðakstursbrot sem kærð voru í liðinni viku reyndust 72. Eitt þessara mála snýr að umferðarslysi sem varð á austurleið eftir Þjóðvegi 1 um Kamba s.l. föstudag kl. 15:30 en þar missti ökumaður bifhjóls stjórn á hjóli sínu og lenti utan í víravegriði þar. Við slysið kastaðist hann yfir á öfugan vegarhelming en víravegriðið greip hjólið og stöðvaðist það í vegöxlinni h. megin m.v. akstursstefnu þess.   Meiðsl mannsins reyndust ekki alvarleg. Hann var fluttur til    skoðunar á heilbrigðisstofnun. Lögreglumenn sem verið höfðu við hraðamælingar á Hellisheiði til móts við Ölkelduháls höfðu gefið manninum stöðvunarmerki eftir að hraði hjólsins hafði mælst 190 km/klst.   Hann virti stöðvunarmerkin engu, virðist hafa aukið við hraðann, og hvarf úr sjónmáli. Lögreglumenn óku svo fram á slysavettvang neðan við „Drottningarpallinn“   í Kömbunum. Fleiri óku hratt og sáust tölur eins og 138 og 141 á mælum lögreglu.     15 þessara mála eru á vegum þar sem leyfður hraði er ýmist 50 eða 70 km/klst

Höfð voru afskipti af þremur ökumönnum um helgina sem grunur er um að hafi verið ölvaðir. Einum þeirra hafði fipast við aksturinn og ekið inn í garð við íbúðarhús á Höfn þann 15. ágúst s.l.   Sá gisti fangageymslur á Höfn og var yfirheyrður daginn eftir um málsatvik öll. Hinir tveir voru annarsvegar á Þingvöllum og hinsvegar í Reykholti.

Þrír ökumenn voru stöðvaðir grunaðir um akstur undir áhrifum fíkniefna.   Hraði bifreiðar eins þeirra hafði mælst 119 km/klst á Suðurlandsvegi við Þingborg þar sem leyfður hraði er 70 km/klst.

Skráningarmerki voru tekin af þremur ökutækjum sem reyndust ótryggð í umferðinni.

Aðstoða þurfti erlendan ferðamann sem festi bifreið sína í Steinholtsá þann 15. ágúst.   Hann ásamt farþega sínum komust á þurrt ásamt því að vegfarandi hafði dregið bifreiðina á þurrt líka.   Um var að ræða jeppabifreið frá bílaleigu.

Þann 14. ágúst slasaðist drengur á sjöunda ári þegar hann féll af hjóli sínu á Hvolsvelli. Kallað var til aðstoðar vegna þessa en upplýsingar um meiðsl hans liggja ekki fyrir.

Laugardaginn 15. ágúst var tilkynnt um ökumenn motorkross hjóla sem sagðir voru að aka ógætilega í kringum sauðfé í fjöru skammt frá Höfn. Upplýsingar liggja fyrir um hverjir hafi líklega verið þar á ferð og mun lögregla ræða við þá.

Lögreglumenn við eftirlit á hálendinu ræddu við ökumenn 8 hópbifreiða og 190 annarra bifreiða til að kanna með ástand þeirra og réttindi.   2 ökumenn sem höfðu voru afskipti af í Veiðivötnum reyndust hafa neytt áfengis fyrir akstur bifreiða sinna en voru undir kærumörkum.   Þeir voru sendir á fæti til áfangastaða sinna.