2 Júlí 2017 14:05
Hvers kyns netglæpir halda áfram. Almenningur hefur verið mjög duglegur að senda okkur inn tilkynningar. Í sumum tilvikum hafa þessar upplýsingar leitt til þess að hægt hefur verið að bjarga öðrum frá því að missa fjármuni. Lögreglan, fjármálaeftirlitið og viðskiptabankar eru í góðu samstarfi og við deilum hratt upplýsingum sem geta leitt til þess að stöðva slík brot.
Margar síur eru líka til staðar í póstforritum eða á samfélagsmiðlum þannig að það er heilmikið í gangi til að verja fólk frá slíkri óværu og hið enska máltæki „It takes a lot of Police work for nothing to happen“ (- Það liggur oft mikil vinna hjá lögreglu til að ekkert gerist) á vel við hér.
Á sama tíma erum við að sjá þróun í aðferðum tölvuþrjótanna. Þeir ganga lengra og lengra í að ljá svikum sínum trúverðugleika. Til að mynda kom upp síðan í svikamáli sem gekk út á að fá manneskju til að halda að pakki væri á leið til viðkomandi. Pakki sem síðan bættust á alls kyns gjöld. Við höfum séð slíkt áður og þá hefur fólk verið að fá falska tölvupósta sem búið að er að eiga við til að gera þá meira sannfærandi. En hér var gengið skrefinu lengra og viðkomandi fékk tilvísunarnúmer sem hann gat slegið inn á falskri heimasíðu. Auðvitað er enginn pakki til en þetta er aukið stig í að ljá lyginni trúverðugleika.
Það eru þrír flokkar sem eru mest áberandi á undanförnu. Þeir byggja á að nota veraldarvefinn sem tæki til að ná til þeirra sem á að svindla á, eða social engineering eins og það er kallað á ensku.
Flokkarnir eru:
• Tölvupóstsvindl BEC – það er vel fjallað um það í greininni og erlendis er það staðfest að það er þessi flokkur sem veldur mestu fjárhagslegu tjóni.
• Íbúðasvindl – stundum kallað Airbnb en þá er fölsk eign auglýst, líka á bland eða mbl og síðan er fólk gabbað til að senda út peninga. Fólk af erlendum uppruna er sérstaklega hætt við að lenda í þessu.
• Vefveiðar – Nýleg tilraun til að veiða kortaupplýsingar þar sem komið var fram í nafni Símans (einkennastuldur) var langvinn og það var fólk sem lét glepjast þó að ég myndi segja að þetta hafi ekki verið vandað.
Farið varlega. Það má alltaf senda á okkur fyrirspurn á fésbókarsíðu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu eða á netfangið abending@lrh.is ef þið teljið að þið séuð að lenda í svikum á netinu.