23 Október 2015 13:14
Út er komin skýrslan Afbrot á höfuðborgarsvæðinu 2014. Þar er fjallað um tíðni afbrota á höfuðborgarsvæðinu en þetta er í níunda sinn sem embættið gefur út tölfræðiskýrslu í þessari mynd. Markmiðið með skýrslunni er m.a. að halda árlega skrá yfir afbrot í umdæminu, mæla þróun í afbrotatíðni milli ára og gera samanburð eftir svæðum.
Á heildina litið fækkaði hegningarlagabrotum um tæplega fjögur prósent frá árinu 2013, þróunin er þó breytileg milli brotaflokka. Sérrefsilagabrotum fjölgaði hins vegar um 14 prósent miðað við árið 2013. Umferðarlagabrotum fjölgaði einnig á milli ára. Skráð voru 19.958 slík brot árið 2014 og fjölgaði þeim um tæplega eitt prósent. Af hegningarlagabrotum fjölgaði nytjastuldum hlutfallslega mest á milli ára. Kynferðisbrotum fækkaði hlutfallslega mest á milli ára. Tilkynningum um kynferðisbrot fækkaði um 43 prósent. Á heildina litið hefur tilkynningum um kynferðisbrot verið að fjölga ár frá ári frá árinu 2005. Fækkunin á milli ára skýrist af metfjölda tilkynninga árið 2013, brotum fjölgaði þá um níu prósent miðað við meðalfjölda árin 2010 til 2012.
Árið 2014 voru tvö manndráp skráð hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og fjórar tilraunir til manndráps. Tilkynningum um ofbeldisbrot fjölgaði um 13 prósent frá árinu 2013. Lögreglu bárust 880 tilkynningar um ofbeldisbrot árið 2014, þar af voru rúmlega 78 prósent tilkynningana vegna minniháttar líkamsárása.
Fíkniefnabrotum fjölgaði um tæplega 15 prósent á milli áranna 2013 og 2014. Fíkniefnabrotum hefur fjölgað stöðugt síðustu ár og er þessi fjölgun að mestu tilkomin vegna fjölgunar brota er varða vörslu og meðferð ávana- og fíkniefna og flutnings fíkniefna á milli landa. Á heildina litið var lagt hald á örlítið meira magn fíkniefna árið 2014 miðað við árið 2013, en oft eru miklar sveiflur á haldlögðu magni á milli ára. Mest magn var tekið af marijúana, tæplega 57 kíló. Ekki hefur verið lagt hald á eins mikið magn af marijúana á einu ári frá því að samræmdar skráningar hófust hjá lögreglu árið 1999.
Árið 2014 voru 15.439 einstaklingar kærðir fyrir afbrot. Þar af voru um 68 prósent karlar og 32 prósent konur. Flestir voru kærðir fyrir umferðarlagabrot eða um 76 prósent. Líkt og fyrri ár voru flestir kærðir fyrir of hraðan akstur eða 9.879 ökumenn. Árið 2014 voru 562 konur og 1.891 karl kærð fyrir hegningarlagabrot. Flestir kærðra karla í hegningarlagabrotum voru á aldrinum 21 til 30 ára, en flestar konur voru hins vegar á aldrinum 15 til 20 ára.