29 Október 2018 13:47

Skýrslan Afbrot á höfuðborgarsvæðinu 2017 er komin út. Í skýrslunni er fjallað um tíðni afbrota á höfuðborgarsvæðinu, en markmiðið er m.a. að halda árlega skrá yfir afbrot í umdæminu og mæla þróun í afbrotatíðni milli ára.

Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu bárust 9.335 tilkynningar um hegningarlagabrot árið 2017. Tilkynningum fjölgaði um átta prósent á milli ára. Skráðum umferðar- og sérrefsilagabrotum fjölgaði umtalsvert árið 2017 miðað við fyrri ár. Alls voru skráð rúmlega 39 þúsund umferðarlagabrot á höfuðborgarsvæðinu árið 2017, en ekki hafa jafn mörg brot verið skráð á einu ári frá því að samræmdar skráningar hófust árið 1999. Það sama á við um sérrefsilagabrot. Árið 2017 voru skráð tæplega 4.000 sérrefsilagabrot og fjölgaði slíkum brotum um 34 prósent á milli ára. Fjölgunin skýrist að miklu leyti af fjölgun fíkniefnabrota, lyfjabrota og brota á vopnalögum, en þessum brotum fjölgaði mest sérrefsilagabrota.

Auðgunarbrot voru um það bil helmingur hegningarlagabrota árið 2017 og fjölgaði slíkum brotum um níu prósent á milli ára. Að meðaltali bárust um 400 tilkynningar um auðgunarbrot á mánuði árið 2017, eða um 13 tilkynningar á dag. Árið 2017 bárust 879 tilkynningar um innbrot á höfuðborgarsvæðinu. Tilkynningarnar voru um 37 prósent færri en þær voru að meðaltali árin 2009 til 2016. Oftast  var tilkynnt um innbrot í heimahús, eða um 41 prósent tilkynninga.

Alls voru þrjú manndráp til rannsóknar hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu árið 2017.Tilkynningum um kynferðisbrot og ofbeldisbrot fjölgaði árið 2017 miðað við fyrri ár. Alls bárust 300 tilkynningar um kynferðisbrot árið 2017, sem gerir um 25 tilkynningar í hverjum mánuði. Þar af var tilkynnt um 140 nauðganir og fjölgaði slíkum tilkynningum um 13 prósent á milli ára. Hlutfallslega fjölgaði þó tilkynningum um kynferðislega áreitni mest, eða um 50 prósent. Árið 2017 voru skráð 1.284 ofbeldisbrot á höfuðborgarsvæðinu, þar af voru 1.043 tilkynningar vegna minniháttar líkamsárása. Fleiri ofbeldisbrot hafa ekki verið skráð á höfuðborgarsvæðinu frá því að samræmdar skráningar hófust árið 1999. Fjölgun minniháttar líkamsárása síðastliðin þrjú ár skýrist að miklu leyti af breyttu verklagi lögreglu í heimilisofbeldismálum sem tók gildi í byrjun árs 2015.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu og tollgæslan lögðu hald á meira magn fíkniefna árið 2017 en árið áður. Oftast var lagt hald á kannabisefni og amfetamín. Haldlagningum á kókaíni fjölgaði mest á milli ára, en lagt var hald á efnið í 491 skipti árið 2017. Alls var lagt hald á um tvö kíló af kókaíni árið 2017 sem er um einu og hálfu kílói meira var en lagt hald á árið 2016.