13 Janúar 2015 15:57

Afbrotatölfræði lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu fyrir desembermánuð 2014 hefur verið birt. Í skýrslunni eru teknar saman upplýsingar um helstu afbrot sem hafa verið tilkynnt til lögreglu. Fjallað er um þróunina á síðustu 13 mánuðum og tölur það sem af er ári bornar saman við sama tímabil síðustu þriggja ára.

Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu bárust 552 tilkynningar um hegningarlagabrot sem áttu sér stað í desember. Er það umtalsverð fækkun miðað við fyrri mánuði. Þar af fækkaði þjófnaðarmálum um 29 prósent miðað við meðalfjölda brota síðastliðna þrjá mánuði. Hefur fjöldi tilkynninga um þjófnað aldrei verið lægri í einum mánuði frá því samræmdar skráningar hófust hjá lögreglu árið 1999. Kynferðisbrotum fækkaði einnig nokkuð. Tilkynnt var um 48 prósent færri brot í desember samanborið við meðalfjölda undanfarinna þriggja mánaða. Ofbeldisbrotum heldur áfram að fjölga miðað við fyrri ár, en tilkynnt var um 14 prósent fleiri brot árið 2014 samanborið við meðalfjölda brota síðustu þrjú ár. Slíkum brotum hefur verið að fjölga á hverju ári frá 2011. Bróðurpartur þessara brota á sér stað í miðborg Reykjavíkur á kvöldin og um helgar.