19 Janúar 2011 12:00

Líkt og fram hefur komið lokaði lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fjórum áfengisveitingastöðum um síðustu helgi. Á einum þeirra reyndist gestafjöldinn vera 173, en staðurinn hafði einungis leyfi fyrir 100 gestum að hámarki. Og á öðrum stað reyndust einnig of margir umfram leyfilegan gestafjölda, auk þess sem innandyra voru ungmenni er veitt hafði verið áfengi, en hvorutveggja er brot á ákvæðum laga og reglna. Þá urðu lögreglumenn vitni að því að gestir báru áfengi út af staðnum.

Lögreglan sendi nýlega leyfishöfum nokkurra vínveitingahúsa eftirfarandi boð: „Að gefnu tilefni vill lögreglan á höfuðborgarsvæðinu benda á ákv. 19. gr. áfengislaga: Bannað er að bera með sér áfengi inn á veitingastaði, annað en það sem þangað er flutt til heimilla veitinga. Á sama hátt er bannað að bera með sér áfengi út af veitingastað.

Talsvert hefur verið um að gestir vínveitingastaða hafi borið með sér áfengi í glösum og flöskum út af stöðunum að næturlagi um helgar. Glerílátin hafa síðan verið brotin með tilheyrandi hávaða og ónæði. Í nokkrum tilvikum hafa þau verið notuð til að kasta í eða berja á fólki með alvarlegum afleiðingum. Vinsamlegast bendið dyravörðum á mikilvægi þess að fylgja samviskusamlega eftir ofangreindu ákvæði. Lögreglan mun á næstunni fylgjast sérstaklega með að það verði gert.“

EFTIRLIT MEÐ VEITINGA- OG SKEMMTISTÖÐUM