8 Júní 2007 12:00

Drengur undir fermingaraldri var stöðvaður á litlu mótorhjóli í vesturhluta borgarinnar fyrr í vikunni en sá ók bæði um íbúðargötu og nærliggjandi tún. Aðspurður um þetta framferði benti strákurinn á afa sinn, sem var einnig á vettvangi, og sagði að hann hefði gefið honum leyfi fyrir þessum akstri. Þeim var báðum bent á að afi væri ekki hafinn yfir lög og reglur og þetta væri með öllu óheimilt. Afinn og barnabarnið tóku tilmælum lögreglu vel og lofuðu bót og betrun en hjólið var bæði óskráð og ótryggt.

Drengurinn þarf að bíða í nokkur ár enn eftir svokölluðu skellinöðruprófi en þangað til getur hann æft sig á viðurkenndu svæði. Eitt slíkt er í umdæmi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og þangað ættu foreldrar og forráðamenn áhugasamra vélhjólakrakka að leita. Æfingasvæðið er á Álfsnesi og þangað eru ungir vélhjólakappar velkomnir.