1 Nóvember 2013 12:00

Fjórir karlar voru í dag í Héraðsdómi Reykjavíkur úrskurðaðir í áframhaldandi gæsluvarðhald til 8. nóvember að kröfu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Mál þeirra snúa að rannsókn lögreglu eftir að grunsemdir vöknuðu um ætlaða sölu og milligöngu vændis af hálfu forsvarsmanns og starfsmanna veitingastaðar í miðborg Reykjavíkur, en fimm voru handteknir á umræddum veitingastað um síðustu helgi. Í kjölfarið var staðnum lokað, og nokkrum dögum síðar var einn til viðbótar handtekinn í þágu rannsóknarinnar. Sá síðastnefndi er einn fjórmenninganna, sem voru úrskurðaðir í áframhaldandi gæsluvarðhald í dag, en mennirnir eru á fertugs- og fimmtugsaldri. 

Alls hafa sex menn verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald í tengslum við málið, en tveir þeirra eru nú lausir úr haldi lögreglu.