7 Mars 2012 12:00
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur nú til rannsóknar mál er varðar afritun greiðslukorta með búnaði sem festur var á hraðbanka. Vísbendingar um afritun greiðslukorta bárust lögreglu sl. fimmtudag og nokkrum klukkustundum síðar var erlendur karlmaður um þrítugt handtekinn er hann var að vitja um slíkan búnað sem var uppsettur á hraðbanka í miðborginni. Búnaðurinn samanstendur af lesbúnaði sem settur er á kortarauf hraðbankans og afritar segulrönd þeirra greiðslukorta sem notuð eru og örsmárri myndavél sem er falin ofan við lyklaborðið og tekur mynd af innslætti á öryggisnúmerum (PIN). Félagi mannsins, sem einnig er um þrítugt, var síðan handtekinn að morgni föstudagsins á Keflavíkurflugvelli er hann var að reyna að komast úr landi. Þeir hafa báðir verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald til 16. mars. Fyrir liggur að þessir aðilar hafa verið hér á landi frá því um miðjan síðasta mánuð og náð að afrita nokkurn fjölda af greiðslukortum en tjón vegna þessa mun væntanlega verða óverulegt vegna þess hve skjótt náðist að hafa hendur í hári þessara aðila.
Afritun greiðslukorta með álíka hætti kom síðast upp hér á landi síðla árs 2006 en lögregla handtók þá tvo aðila sem í framhaldi voru dæmdir í 8 og 12 mánaða fangelsi fyrir athæfið.
Lögreglan lagði hald á þennan búnað.
Lögreglan lagði hald á þennan búnað.