4 Nóvember 2011 12:00
Þeir sem koma við sögu hjá lögreglu eru oft með skýringar á reiðum höndum til að afsaka hitt og þetta. Menn segja ýmislegt sér til málsbóta en svo var því einmitt farið hjá tveimur tvítugum piltum, sem voru handteknir fyrir þjófnað í miðborginni á dögunum. Á lögreglustöð gengust þeir við brotinu enda málið svo gott sem borðleggjandi þar sem piltarnir voru bókstaflega gripnir glóðvolgir. Þeir vildu kenna áfengi um að svona hefði farið en sannarlega voru þeir ölvaðir. Piltarnir héldu því jafnframt mjög á lofti að þeir væru menntamenn með algjörlega flekklausan feril. Ekki var það nú alveg satt því annar þeirra var nýverið handtekinn vegna gruns um fíkniefnamisferli. Því er svo við að bæta að mál félaganna fer nú sína leið í kerfinu en ósagt skal látið hvort menntun þeirra verði metin þeim til refsilækkunar.