29 Nóvember 2019 15:25
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu biðst afsökunar á umfjöllun um útkall hennar á skólaskemmtun í Breiðholti í gærkvöld, en frétt fjölmiðla var byggð á upplýsingum frá embættinu. Greint var frá aðila sem var í annarlegu ástandi, en af því mátti ráða að viðkomandi hefði verið ölvaður eða undir áhrifum fíkniefna. Svo var þó alls ekki heldur var um veikindi að ræða. Lögreglunni hafa borist, mjög svo réttilega, kvartanir vegna fréttarinnar og harmar hún mjög að hafa valdið fólki óþægindum og sárindum.
Ljóst er að mistök voru gerð við upplýsingagjöf og ekki var sýnd viðeigandi nærgætni enda um viðkvæmar upplýsingar að ræða.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu vill því ítreka afsökunarbeiðnina og biður alla hlutaðeigendur velvirðingar.