30 Ágúst 2006 12:00

Vel á annan tug umferðaróhappa urðu í umdæmi lögreglunnar í Reykjavík í gær. Í flestum tilfellum var um aftanákeyrslur að ræða og í nokkrum tilvikum gættu ökumenn ekki að sér þegar þeir skiptu um akrein. Sömuleiðis mátti rekja umferðaróhapp til þess að biðskylda var ekki virt.

Einbeitingin verður alltaf að vera í lagi og því fylgir að hafa augun á veginum. Það vill stundum gleymast og þá getur það reynst dýrkeypt. Í einni aftanákeyrslunni í gær bar ökumaður því við að hann hefði misst símann frá sér. Hann leitaði eftir símanum og náði því ekki að fylgjast með umferðinni fyrir framan sig. Fyrir bragðið var hann of seinn að hemla þegar næsti bíll fyrir framan hægði á sér.

Þetta er ekkert einsdæmi en minnir okkur á enn og aftur að akstur krefst stöðugrar athygli. Þrátt fyrir öll óhöppin í gær var lítið um slys á fólki. Þó var tíu ára drengur fluttur á slysadeild eftir árekstur við bíl. Stráksi var á hjólinu sínu þegar atvikið átti sér stað en athygli vakti að hann var hjálmlaus. Vonandi verður hjálmurinn alltaf á höfði piltsins þegar hann fer út að hjóla hér eftir.