12 September 2007 12:00
Allmargir voru staðnir að hraðakstri á höfuðborgarsvæðinu í gær en í þeim hópi var 17 ára stúlka sem var stöðvuð á mótum Reykjanesbrautar og Sæbrautar. Bíll hennar mældist á 118 km hraða og fyrir vikið á stúlkan ökuleyfissviptingu yfir höfði sér. Vegna þessa liggur líka fyrir henni að reyna að standast ökupróf öðru sinni.
Tuttugu og eitt umferðaróhapp var tilkynnt til lögreglu í gær en þau voru flest minniháttar. Sextugur karl var tekinn fyrir ölvunarakstur en til hans náðist á Suðurlandsbraut. Í Kópavogi var fimmtugur karl stöðvaður í umferðinni en sá hafði þegar verið sviptur ökuleyfi.