29 Júní 2018 10:00

Nú þegar júlí er að ganga í garð er viðbúið að margir verði á faraldsfæti og því má búast við töluverðri umferð á vegunum. Landinn er tilbúinn með ferðavagnana  sína, en víst er að veðurspáin stjórnar því mestmegnis hvert verður haldið. Oftar en ekki er besta, eða skásta, veðrið norðan eða austanlands og ekki ósennilegt að svo verði áfram. Sem fyrr minnir Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu alla vegfarendur á að fara varlega og sýna þolinmæði og tillitssemi. Ökumenn eru sérstaklega minntir á að virða leyfðan hámarkshraða og sýna sérstaka varúð ef um framúrakstur er að ræða. Auk bílanna eru fjölmargir hjólreiða- og bifhjólamenn á ferðinni. Þar má nefna keppendur í WOW cyclothon, en reiðhjólakapparnir fara hringinn í kringum landið. Mörg bifhjól eru líka á vegunum þessa dagana, en um 50 manna hópur erlendra bifhjólamanna kom gagngert til að aka um landið, en hinir sömu eru allir á Harley Davidson bifhjólum. Búast má við að Íslendingar á Harley Davidson bifhjólum aki þeim til samlætis.

Ökumenn, sem eru með hjólhýsi, tjaldvagna, fellihýsi eða kerrur í eftirdragi, eru hvattir til að yfirfara búnaðinn áður en lagt er af stað og ganga úr skugga um að allt sé í lagi. Þetta á t.d. við um ljósabúnað, spegla og tengibúnað.