23 Mars 2011 12:00
Til að umferðin gangi vel fyrir sig er mikilvægt að allir ökumenn virði umferðarlögin. Á þessu er stundum misbrestur og dæmi um það er karl á miðjum aldri sem lögreglan stöðvaði á fjölfarinni umferðargötu í borginni rétt fyrir hálfníu í morgun. Sá ók dráttarvél og fór eðlilega hægt yfir. Olli þetta nokkrum vandræðum og tafði fyrir umferð en maðurinn var látinn leggja dráttarvélinni við vegkantinn. Honum var svo leyft að halda för sinni áfram eftir klukkan níu enda eru allvíða sérstakar takmarkanir vegna hægfara ökutækja. Á umræddum vegi er t.d. umferð hægfara dráttarvéla, torfærutækja á hjólum og vinnuvéla bönnuð á tilteknum tíma, bæði á morgnana og síðdegis. Það er jafnframt auglýst skilmerkilega á umferðarmerkjum og átti svo við í þessu tilfelli.