3 Maí 2007 12:00
Það hefur löngum verið sagt að við akstur ökutækis sé nauðsynlegt að hafa athyglina í lagi og því ættu ökumenn að láta sumt ógert. Það sannaðist enn og aftur í nótt þegar 19 ára piltur missti stjórn á bíl sínum á Reykjanesbraut í Kópavogi. Pilturinn var að reykja sígarettu undir stýri og missti hana frá sér. Við það fipaðist hann og ók á rammgerða girðingu sem er við veginn. Bíllinn skemmdist töluvert og voru skráningarnúmer hans fjarlægð. Pilturinn og farþegi í bílnum voru fluttir á slysadeild en meiðsli þeirra voru ekki talin alvarleg.
Tuttugu og átta umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á síðasta sólarhring. Einn var tekinn fyrir lyfjaakstur og annar fyrir að aka án þess að hafa öðlast ökuréttindi. Sá síðarnefndi framvísaði fölsuðum skilríkjum en samkvæmt þeim var ökumaðurinn rúmlega tvítugur. Við eftirgrennslan lögreglumanna kom hinsvegar í ljós að ökumaðurinn er aðeins 16 ára.