16 Júlí 2007 12:00
Fjórir ökumenn voru teknir fyrir að aka undir áhrifum fíkniefna á höfuðborgarsvæðinu um helgina. Fyrst var 19 ára piltur stöðvaður fyrir þessar sakir í miðborginni á föstudag. Með honum í bíl voru tveir piltar og ein stúlka á líku reki en á vettvangi fundust ætluð fíkniefni. Þau voru öll flutt á lögreglustöð enda í annarlegu ástandi. Ökumaðurinn reyndist þegar hafa verið sviptur ökuleyfi en þess má líka geta að bíll hans var búinn nagladekkjum. Sama dag var hálffertugur karlmaður stöðvaður við lögreglustöðina á Hverfisgötu en í bíl hans fundust ætluð fíkniefni. Farþegi í bíl mannsins var sömuleiðis handtekinn en sá var eftirlýstur vegna ýmissa mála.
Á laugardag var liðlega tvítugur piltur stöðvaður í Kópavogi og honum gert að hætta akstri en ökumaðurinn er grunaður um fíkniefnamisferli. Á sunnudag var svo 17 ára piltur tekinn í Ártúnsbrekku en sá var líka undir áhrifum fíkniefna. Bíll hans reyndist búinn nagladekkjum en þetta var sama ökutæki og lögreglan stöðvaði í miðborginni á föstudag. Þá var líka undir stýri ökumaður sem hafði neytt fíkniefna.