12 Apríl 2017 11:40
Afbrotatölfræði lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu fyrir marsmánuð 2017 hefur verið birt. Í skýrslunni eru teknar saman upplýsingar um helstu afbrot sem hafa verið tilkynnt til lögreglu. Fjallað er um þróunina á síðustu 13 mánuðum og tölur það sem af er ári bornar saman við sama tímabil síðustu þriggja ára.
Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu bárust 705 tilkynningar um hegningarlagabrot í mars. Eru það nokkuð fleiri tilkynningar en bárust í febrúar. Í mars fjölgaði skráðum ofbeldisbrotum nokkuð á milli mánaða. Skýrist sú fjölgun að miklu leyti af fjölgun heimilisofbeldismála í marsmánuði. Í mars bárust alls 32 beiðnir um leit að týndum börnum og ungmennum, ekki hafa borist jafn margar beiðnir um leitir í einum mánuði frá því að verkefnið hófst formlega í nóvember árið 2014. Skráðum brotum þar sem ökumaður var grunaður um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna fjölgaði einnig í mars. Skráð voru 46 prósent fleiri brot en að meðaltali síðustu 12 mánuði á undan og hafa brotin verið um 41 prósent fleiri það sem af er ári miðað við meðaltalið á sama tíma síðustu þrjú ár á undan.