20 Júlí 2018 14:49

Afbrotatölfræði lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu fyrir júnímánuð 2018 hefur verið birt. Í skýrslunni eru teknar saman upplýsingar um helstu afbrot sem hafa verið tilkynnt til lögreglu. Fjallað er um þróunina á síðustu 13 mánuðum og tölur það sem af er ári bornar saman við sama tímabil síðustu þriggja ára.

 

Skráð voru 762 hegningarlagabrot á höfuðborgarsvæðinu í júní. Þar af voru skráð 310 þjófnaðarbrot, sem eru nokkuð færri brot en voru skráð í maí. Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu bárust 123 tilkynningar um ofbeldisbrot í júní sem er nokkur fjölgun miðað við fyrri mánuði. Tilkynningum um kynferðisbrot fækkaði hins vegar miðað við meðalfjölda fyrri mánuða. Skráðar voru 13 tilkynningar um kynferðisbrot í júní. Í júní var 1.241 umferðarlagabrot skráð á höfuðborgarsvæðinu sem er þónokkur fjölgun miðað við fyrri mánuði. Þar af voru skráð 163 brot vegna aksturs undir áhrifum ávana- og fíkniefna, en ekki hafa verið skráð jafn mörg slík brot í einum mánuði frá því að samræmdar skráningar hófust hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu árið 1999. Skráð voru 118 brot vegna ölvunar við akstur í júní sem er þónokkur fjölgun brota miðað við fyrri mánuði. Skráðum fíkniefnabrotum fjölgaði einnig í júní. Skráð voru 204 fíkniefnabrot sem er um 63 prósenta fjölgun miðað við fjölda brota í maí. Aðeins einu sinni áður hafa jafn mörg fíkniefnabrot verið skráð í einum mánuði, en það var í júní árið 2014 þegar 214 fíkniefnabrot komu á borð lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.