29 Júlí 2021 12:49

Síðdegis í gær var leitað að sex ára stúlku í Þingholtunum, en hún var í heimsókn í hverfinu og því ókunnug umhverfinu. Móðirin hringdi í lögregluna um leið og hvarfið uppgötvaðist og strax var hafist handa við að finna stúlkuna. Margir komu að leitinni, m.a. íbúar í hverfinu og vegfarendur þar, en aðdáunarvert var að sjá alla leggjast á eitt. Biðin var örugglega mjög erfið, en um klukkustund leið áður en stúlkan fannst. Hún hafði þá gengið töluverðan spöl, en það var vegfarandi sem fann stúlkuna og lét móðurina vita. Þá þegar höfðu verið gerðar ráðstafanir til að kalla út sporleitarhund og leitarflokk, en aðstoðarbeiðnin var afturkölluð þegar gleðitíðindin bárust. Lögreglumenn sóttu því næst stúlkuna og komu henni til móðurinnar og voru það fagnaðarfundir eins og gefur að skilja. Hópur fólks varð vitni að endurfundum mæðgnanna og var þá klappað vel og innilega. Það var virkilega fallegt að sjá.