19 Október 2016 16:30

Rúmlega 300 manns voru handteknir í alþjóðlegum lögregluaðgerðum Europol og samstarfsaðila stofnunarinnar á dögunum. Um er að ræða samstarfsverkefni undir heitinu Operation Ciconia Alba þar sem ráðist hefur verið gegn skipulagðri brotastarfsemi um allan heim. Í aðgerðunum núna, sem stóðu yfir í eina viku, var m.a. lagt hald á meira en 2 tonn af kókaíni. Flestir hinna handteknu, eða tæplega 200 manns, eru þó grunaðir um aðild að netglæpum. Fjölmargir, eða um 70, voru handteknir í tengslum við rannsóknir mansalsmála. Íslensk lögreglu- og tollyfirvöld, auk tengslaskrifstofu okkar hjá Europol, komu að viðamiklum undirbúningi aðgerðanna, en tvö mansalsmál hérlendis tengjast þessum alþjóðlegu aðgerðum. Nánar má lesa um Operation Ciconia Alba á heimasíðu Europol (sjá hlekkinn hér að neðan).

https://www.europol.europa.eu/content/global-operation-ciconia-alba-delivers-major-blow-organised-crime

europol