17 Desember 2015 14:54

Nærri 900 manns hafa verið handteknir í alþjóðlegum lögregluaðgerðum Europol og samstarfsaðila stofnunarinnar á árinu. Um er að ræða samstarfsverkefni undir heitinu Operation Blue Amber þar sem ráðist hefur verið gegn skipulagðri brotastarfsemi víða um heim, en í aðgerðunum hefur m.a. verið lagt hald á meira en 7 tonn af fíkniefnum. Íslensk lögregluyfirvöld hafa tekið þátt í fyrrnefndum aðgerðum, en í haust voru t.d. viðamiklar aðgerðir hér á landi gegn innflutningi stera, sölu, dreifingu og framleiðslu þeirra. Þá var lagt hald á mikið magn af sterum, mestmegnis í formi dufts og taflna, auk búnaðar af ýmsu tagi, m.a. til framleiðslu stera. Mál sem snýr að innflutningi mikils magns fíkniefna, sem falin voru í bifreið sem kom hingað til lands með Norrænu í haust, er sömuleiðis hluti af þessu samstarfsverkefni. Nánar má lesa um Operation Blue Amber á heimasíðu Europol (sjá hlekkinn hér að neðan). Þess má geta að um allnokkurt skeið hefur sérstakur tengslafulltrúi Íslands verið starfandi hjá Europol og hefur það reynst mjög vel.

Heimasíða Europol

Europol