5 Nóvember 2007 12:00

Alþjóðleg lögreglurannsókn vegna dreifingar og sölu á netinu á efni sem sýnir kynferðislega misnotkun á börnum hófst árið 2006 þegar myndbönd, sem innihéldu slíkt efni, fundust í Ástralíu. Rannsóknin, sem gefið var nafnið Operation Koala, leiddi í ljós að efnið var upprunnið frá Úkraínu, Belgíu og Hollandi. Í kjölfarið var 42 ára ítalskur karlmaður handtekinn vegna framleiðslu á slíku efni og sölu á því í gegnum heimasíðu sína á netinu. Viðskiptavinir hins handtekna reyndust vera um 2500 talsins og teygði rannsóknin sig til 30 landa. Nánari upplýsingar um þennan þátt málsins er að finna í fréttatilkynningu frá Eurojust og Europol sem gefin var út fyrr í dag (http://www.europol.europa.eu/).

Í byrjun mars 2007 barst tilkynning frá Europol til íslenskra lögregluyfirvalda um að tveir af hinum 2500 viðskiptavinum ofangreindrar heimasíðu væru íslenskir. Kynferðisbrotadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hóf þegar rannsókn málsins. Tveir karlmenn, báðir búsettir á höfuðborgarsvæðinu, annar á fertugsaldri en hinn á þrítugsaldri, voru handteknir. Lögreglan gerði húsleit hjá þeim báðum og lagði hald á tölvur og ýmis gögn.

Annar sakborninganna viðurkenndi við yfirheyrslur að hafa skoðað umrædda heimasíðu en reyndist ekki hafa keypt neitt efni þaðan. Í tölvum hans fundust hins vegar tæplega 1000 ljósmyndir sem, að mati lögreglu, innihéldu efni sem sýndi kynferðislega misnotkun á börnum. Um var að ræða myndir sem hann hafði sótt víðsvegar á netinu. Í fórum hins sakborningsins fann lögreglan rúmlega 24 þúsund ljósmyndir og um 800 hreyfimyndir sem, að mati lögreglu, sýndu kynferðislega misnotkun á börnum. Heildarsýningartími hreyfimyndanna var um 46 klukkustundir og þar á meðal var efni af umræddri heimasíðu.

Báðir sakborningarnir eru sakaðir um brot gegn 4. mgr. 210. gr. almennra hegningarlaga en þar segir m.a.: „Hver sem flytur inn, aflar sér eða öðrum, eða hefur í vörslu sinni ljósmyndir, kvikmyndir eða sambærilega hluti sem sýna börn á kynferðislegan eða klámfenginn hátt skal sæta sektum eða fangelsi allt að 2 árum ef brot er stórfellt.“ Rannsókn beggja þessara mála er lokið. Málin hafa verið send embætti ríkissaksóknara til meðferðar en það embætti fer með saksókn í málum af þessum toga.

Fjórtán önnur mál vegna barnakláms hafa verið til rannsóknar hjá kynferðisbrotadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu það sem af er þessu ári. Lögreglan hvetur fólk til að tilkynna ef það verður vart við efni á netinu sem sýnir kynferðislega misnotkun á börnum. Bæði er hægt að tilkynna beint til lögreglunnar eða í gegnum heimasíðu Barnaheilla ( http://www.abotinn.is/barnaheill/index1.htm ). Þar, sem og á vef lögreglunnar ( / ) er að finna leiðbeiningar varðandi aðgerðir gegn barnaklámi.

Í undirbúningi hjá lögreglu er samstarf við hérlend netfyrirtæki til að hindra dreifingu og útbreiðslu á myndefni sem inniheldur kynferðislega misnotkun á börnum. Til eru sérstök forrit sem notuð eru í þessu skyni sem finna slíkar heimasíður, auðkenna þær og hindra aðgang að þeim. Slík forrit eru þegar í notkun í Noregi, Svíþjóð og Danmörku.