16 Mars 2011 12:00

Íslenskur karlmaður um þrítugt kemur við sögu í alþjóðlegri lögreglurannsókn sem Europol greindi frá í dag. Rannsóknin, sem gengur undir nafninu Operation Rescue og teygir sig til fjölmargra landa, sneri að samskiptum aðila á spjallrás á Netinu. Þar voru til umfjöllunar myndir sem á mátti sjá börn misnotuð kynferðislega. Kynferðisbrotadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu bárust gögn um málið síðasta sumar en í þeim var íslensk IP-tala (einkennistala tölvu) rakin til manns á höfuðborgarsvæðinu. Í framhaldinu var Íslendingurinn handtekinn og yfirheyrður og hjá honum gerð húsleit. Hald var lagt á tölvubúnað en í honum fundust gögn um þátttöku mannsins í spjalli á Netinu þar sem umræðuefnið var barnaníð. Íslendingurinn, sem notaðist ávallt við sama gælunafn þegar hann tók þátt í spjalli af þessu tagi, viðurkenndi aðild sína að málinu. Maðurinn, sem hefur áður komið við sögu hjá lögreglu hérlendis og fékk átta mánaða fangelsisdóm árið 2006 fyrir vörslu á myndefni sem sýndi börn misnotuð kynferðislega, neitaði því hinsvegar að hafa undir höndum efni sem sýndi kynferðislegt ofbeldi gagnvart börnum. Ekki var það nú sannleikanum samkvæmt því í tölvugögnum hans fundust fimm hreyfiskeið sem öll sýndu kynferðislegt ofbeldi gagnvart börnum.

Rannsókn kynferðisbrotadeildar LRH á áðurnefndum hluta Operation Rescue er lokið. Málið var sent embætti ríkissaksóknara til  meðferðar en gefin hefur verið út ákæra á hendur manninum.

FRÉTTATILKYNNING EUROPOL – OPERATION RESCUE