16 Október 2015 12:00

Fyrr í dag sendi Europol út fréttatilkynningu um samstarfsverkefnið Operation Blue Amber. Verkefnið stóð yfir frá 21. september til 4. október og var tilgangur þess að auka samstarf Evrópulandanna í rannsóknum á skipulagðri brotastarfsemi. Fjöldi lögregluaðgerða voru felldar undir verkefnið en í þeim voru samtals 179 sakborningar handteknir og lagt hald á rúm 3 tonn af sterkum fíkniefnum. Rannsókn Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á innflutningi mikils magns fíkniefna sem falin voru í bifreið sem kom hingað til lands með Norrænu fyrr í mánuðinum er hluti af þessu samstarfsverkefni. Eins og áður hefur komið fram voru fjórir karlmenn á þrítugs- og fertugsaldri handteknir vegna málsins, tveir Íslendingar og tveir Hollendingar. Mennirnir hafa verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald til 27. október vegna rannsóknar málsins.

Lögregluyfirvöld í Hollandi og Þýskalandi auk tengslafulltrúa Íslands hjá Europol koma að rannsókn málsins og hafa veitt Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu mikilvægan stuðning m.a. í formi upplýsinga og greininga við vinnslu málsins. Þessi lögregluaðgerð er lýsandi dæmi um þann árangur sem er mögulegur með samstarfi lögregluliða í Evrópu undir hatti Europol.

Þess má jafnframt geta að í maí og júní stóðu Europol og samstarfsaðilar fyrir sambærilegri aðgerð undir sama nafni. Þá var árangurinn af samvinnu lögregluliða víða um heim mjög góður og sama var upp á teningnum nú, en um lögregluaðgerðina má lesa frekar á heimasíðu Europol (sjá hlekkinn hér að neðan).

https://www.europol.europa.eu/content/179-arrests-and-3-tonnes-cocaine-seized-international-operation-against-organised-crime