5 Mars 2012 12:00

Svo virðist sem innheimta minniháttar skuldar hafi verið tilefni líkamsárásar á lögmannsstofu í austurborginni í morgun. Karl á fertugsaldri var handtekinn á vettvangi en sá hafði veitt tveimur starfsmönnum lögmannsstofunnar áverka með eggvopni. Árásarmaðurinn var yfirheyrður hjá lögreglu í dag en maðurinn var hvorki undir áhrifum áfengis né fíkniefna þegar hann var handtekinn. Engin fyrri samskipti höfðu átt sér stað á milli árásarmannsins og þess sem fyrir árásinni varð en annar starfsmaður lögmannsstofunnar var stunginn þegar hann kom samstarfsfélaga sínum til hjálpar. Lögð verður fram krafa um gæsluvarðhald yfir árásarmanninum á morgun en hann kom vopnaður hnífi á lögmannsstofuna.

Líkt og áður hefur komið fram barst lögreglu tilkynning um líkamsárás á lögmannsstofu í austurborginni rétt fyrir klukkan tíu. Árásarmaðurinn veitti þar tveimur starfsmönnum áverka með eggvopni en hinir slösuðu voru fluttir á Landspítalann. Annar þeirra, karl um sextugt sem var stunginn nokkrum sinnum, er alvarlega slasaður. Sá sem slasaðist minna, karl á fimmtugsaldri, náði að yfirbuga árásarmanninn áður en lögreglan kom á vettvang.