7 Október 2007 12:00

Um hálftvöleytið í dag var lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu tilkynnt um alvarlega slasaðan mann í heimahúsi við Hringbraut í Reykjavík. Er lögregla kom á vettvang reyndist karl á fimmtugsaldri vera meðvitundarlaus í íbúð sinni og með mikla áverka á höfði. Hann var fluttur í skyndingu á sjúkrahús. Að mati lækna eru áverkarnir lífshættulegir. Karl á fertugsaldri, sem var í húsinu og tilkynnt hafði lögreglu um hinn slasaða, var handtekinn grunaður um að vera valdur að áverkunum. Rannsókn málsins er á frumstigi og því er ekki unnt að veita frekari upplýsingar að sinni.