2 Júlí 2007 12:00

Þegar skoðaðar eru tölur um fjölda alvarlegra slasaðra á höfuðborgarsvæðinu á fyrstu fjórum mánuðum árs 2002 til 2007 kemur í ljós að þeim sem slösuðust alvarlega í umferðinni fækkaði um tæplega 12% árið 2007 samanborið við sama tímabil árið 2002. Í heildina eru ekki miklar breytingar milli ára. Þannig slösuðust 17 alvarlega í umferðinni á höfuðborgarsvæðinu frá janúar til apríl árið 2002 og 2003, 15 árið 2004 og 11 árið 2005. Þá slösuðust 13 árið 2006 og 15 á sama tíma á þessu ári.

Frá 2002 hefur skráðum ökutækjum á höfuðborgarsvæðinu fjölgað um nær 50.000 og fækkun slysa því meiri þegar tekið er tillit til fjölda ökutækja. Þannig fór fjöldi alvarlega slasaðra miðað við 10.000 ökutæki úr 1,4 á fyrstu fjórum mánuðum ársins 2002 í tæplega 0,8 árið 2005. Þessi fjöldi hefur haldist nokkuð stöðugur síðan þá og var tæplega 0,9 slasaðir á hver 10.000 ökutæki árið 2007.

Látnum í umferðinni fjölgar ekki á sama tíma en á tímabilinu janúar til apríl en árið 2002 létust tveir í umferðinni á höfuðborgarsvæðinu á þessu tímabili, enginn árið 2003 og tveir árið 2004. Árið 2005 lést einn í umferðinni á höfuðborgarsvæðinu og þrír árið 2006. Það sem af er þessu ári hefur enginn látist í umferðinni á höfuðborgarsvæðinu. 

Nánari upplýsingar um fjölda slysa miðað við 10.000 ökutæki má finna hér