14 Apríl 2015 17:03
Um klukkan hálfþrjú í dag barst Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu tilkynning um tvo drengi sem sagðir voru hætt komnir við Reykdalsstíflu í Hafnarfirði. Þegar að var komið reyndust drengirnir vera fastir í fossi, sem kemur af stíflunni, en á vettvangi var enn fremur karl á þrítugsaldri, sem reyndi að koma þeim til aðstoðar. Aðstæður á slysstað voru mjög erfiðar og áttu lögreglumenn erfitt með að athafna sig. Björgunaraðgerðir gengu því erfiðlega, en lífgunartilraunir með annan drenginn báru fljótt árangur en verr gekk með hinn og ekki er hægt að fullyrða frekar um afdrif hans. Drengirnir, sem eru á grunnskólaaldri, voru fluttir á slysadeild. Starfsmenn Hafnarfjarðarbæjar komu á vettvang og munu þeir, ásamt lögreglu, fara yfir aðstæður á og við slysstaðinn til að tryggja að slys sem þetta geti ekki endurtekið sig. Vettvangsvinnu lögreglu er ekki lokið.