23 September 2002 12:00

Ályktun frá þátttakendum á unglingaþingi

sem var haldið í Menningarmiðstöðinni Gerðubergi

Föstudaginn 13. september tóku 30 fulltrúar frá nemendaráðum grunnskólanna í Reykjavík þátt í verkefninu Unglingar þinga. Þema þingsins var: Unglingar – kynlíf – fjölmiðlar.

Við undirrituð störfuðum sem blaðamenn á þinginu og sendum frá okkur ályktun um niðurstöður þess.

Grindhoruð með stór brjóst!

Á þinginu var meðal annars fjallað um staðalímyndir, kynlíf, auglýsingar, fordóma, uppeldi, áherslur í fjölmiðlum, fræðslu í skólum og á heimilum og margt fleira. Okkur fannst umræðan gera okkur enn meðvitaðri um margt sem blasir við í umhverfi okkar og í umfjöllun fjölmiðla.

Okkur finnst gagnrýni á ungt fólk vera alltof mikil í fjölmiðlum. Í fjölmiðlum kemur einungis fram neikvæð umfjöllun um unglinga. Okkur finnst vera vaxandi virðingarleysi gagnvart unglingum. Unglingum er ekki treyst. En það er gott að vera unglingur þegar hægt er að tjá sig og hlustað er á mann af alvöru og virðingu.

Við viljum að fjölskyldur séu meira SAMAN – og noti tímann til að GERA eitthvað saman. Það flokkast ekki undir samverustund að sitja bara við sjónvarpið. Unglingar sem koma frá sterkum fjölskyldum falla síður fyrir áhrifum neikvæðra áhrifavalda. Foreldrar eiga að fá að vita ef börn þeirra drekka eða nota önnur vímuefni.

Við gagnrýnum platið í auglýsingunum þar sem tölvufígúrur eru fyrirmyndir en ekki alvöru fólk og þar sem gínur eru notaðar til að sýna hina fullkomnu konu sem er grindhoruð með stór brjóst. Við vitum að hlutföllin í Barbie eru kolrugluð og að grindhoruð módel eru hvorki heilbrigð né eðlileg. Það er plat sem því miður alltof margir falla fyrir og reyna að líkjast þessum gervi módelum. Okkur finnst rangt að gera litlar stelpur að kynverum í konufötum og að nota kynlíf til að ná athygli í auglýsingum. Okkur finnst líka rangt að hafa klámblöð þar sem börn sjá þau í búðum.

Í mörgum skólum er kynfræðsla góð en hún verður að vera það í ÖLLUM skólum. Til dæmis þarf fræðslu um tilfinningalega þáttinn í kynlífi og um ábyrgðina sem fylgir kynlífi. Og svo geta foreldrar líka bætt sig mikið í því að fræða börn sín.

Við gagnrýnum fordóma gegn hommum og finnst orðið hommi vera notað í niðrandi merkingu. En hins vegar eru næstum ekki neinir fordómar í garð lesbía.

Takk fyrir að lesa þetta og ennþá meira fyrir að birta það og fjalla um það. Við erum tilbúin til frekari umræðu:

Elvar Örn Þormar, Klara Jóhanna Arnalds, Lovísa Anna Finnbjörnsdóttir, KolbrúnTara Friðriksdóttir, Kolbrún Ýr Ólafsdóttir og Eyjólfur Fannar Eyjólfsson.

Samstarfsaðilar vegna unglingaþingsins eru ýmsar stofnanir sem vilja stuðla að heilbrigðum lífsstíl ungs fólk, það eru: Menningarmiðstöðin Gerðubergi, Fræðslumiðstöð Reykjavíkur, Íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkur, Félagsþjónustan, SAMFOK, Lögreglan í Reykjavík, Neyðarmóttakan og Landlæknisembættið.