7 Júlí 2011 12:00

Kona á þrítugsaldri hefur verið úrskurðuð í farbann til 4. ágúst að kröfu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Konan var handtekin um síðustu helgi vegna rannsóknar á voveiflegu andláti barns. Í framhaldinu var hún lögð inn á sjúkrahús en síðar færð í gæsluvarðhald. Konan er nú laus úr haldi lögreglu. Ekki er hægt að veita frekari upplýsingar um málið að svo stöddu en vísað er á fréttatilkynninguna hér að neðan.

Rannsókn á voveiflegu andláti barns í Reykjavík  

Rannsókn lögreglunar á höfuðborgarsvæðinu á voveiflegu láti barns, hvers lík fannst í sorpgeymslu við hótel í Reykjavík síðdegis sl. laugardag, hefur miðað áfram.  Í ljósi þess sem nú liggur fyrir þykja ekki lengur fyrir hendi þau skilyrði gæsluvarðhalds yfir konunni, sem handtekin var í tengslum við málið, og voru grundvöllur gæsluvarðhaldsúrskurðar Héraðsdóms sunnudaginn 3. júlí enda hefur Hæstiréttur fellt hann úr gildi.

Rannsókn og bráðabirgðaniðurstaða krufningar þykir benda til þess að barnið hafi fæðst lifandi og heilbrigt, en það hafi látist með voveiflegum hætti og að konan, sem þykir vafalaust að fæddi það, beri ábyrgð á andláti þess.  Eftir það hafi hún sjálf komið því fyrir í sorpgeymslu og allt þetta hafi gerst án þess að aðrir hafi haft eða fengið um það vitneskju.

Kappkostað verður að ljúka rannsókn málsins sem fyrst og senda rannsóknargögn til ríkissaksóknara til ákvörðunar.  Í þágu rannsóknar og meðferðar málsins var lögð fram krafa fyrir héraðsdómi Reykjavíkur um það að konan, sem er erlendur ríkisborgari, sæti farbanni sem héraðsdómur hefur fallist á.  Þá verður gætt að því í dag að konan fái læknisaðstoð og heilbrigðisþjónustu í samræmi við þarfir sem læknar meta.

Rannsókn lögreglu beinist að því að upplýsa hvort atvik hafi verið með þeim hætti að falli kunni undir 212. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ekki er unnt að veita frekari upplýsingar um rannsókn málsins að svo stöddu.