9 Október 2006 12:00
Helgin var annasöm hjá lögreglunni í Reykjavík sem að vanda þurfti að sinna nokkur hundruð málum. Þau voru vitaskuld ólík en kölluðu á afskipti af fólki á ýmsum aldri. Umferðarmálin voru mjög fyrirferðarmikil eins og alltaf og þá eru helgarnar sá tími þegar ölvað fólk er sérstaklega til vandræða. Fjölmörg slík mál komu til kasta lögreglunnar. Sama má segja um kvartanir vegna hávaða í heimahúsum. Þá voru átta líkamsárásir tilkynntar til lögreglunnar.
Töluvert var um skemmdarverk í borginni en á þriðja tug tilkynninga bárust í þeim málaflokki. Mikið er um rúðubrot og það eru einkum fyrirtæki og stofnanir sem verða fyrir slíku. Þessa helgina var líka tilkynnt um rúðubrot á einkaheimili. Þá voru allnokkrir bílar rispaðir. Þetta er ekki glæsileg upptalning en þó var helgin ekki alslæm. T.d. var lítið um innbrotsþjófa á ferð þessa helgina.
Engu að síður komu allmörg þjófnaðarmál á borð lögreglunnar. Í gær var m.a. stolið fjármunum úr söfnunarbauk hjálparstofnunar en slíkur verknaður er afskaplega dapurlegur. Hreint ótrúlegt hvað sumt fólk getur lagst lágt. Sem betur fer eru hins vegar sum mál þannig vaxin að þau vekja upp bros eftir á. Þannig var með ungu mennina þrjá sem voru að handleika byssur í gærmorgun. Þegar að var gáð voru þeir að leika í kvikmynd og byssurnar voru aðeins leikmunir.