3 September 2002 12:00

Ársskýrsla lögreglustjórans í Reykjavík fyrir árið 2001 hefur verið gefin út. Þar er leitast við að koma á framfæri upplýsingum um skipulag og starfsemi innan embættisins á síðastliðnu ári, kynna nýjungar í starfi og koma á framfæri fyrirliggjandi upplýsingum um brotaþróun. Einnig er að sjá áhugaverðar greinar sem fjalla um mál er varða lögregluna.

Árið 2001 var annasamt hjá lögreglunni í Reykjavík eins og fyrri ár. Embættið skilar rekstrarhagnaði en fækka þurfti starfsfólki til að ná fjárhagshalla síðustu tveggja ára niður á einu ári.

Árið 2001 fækkaði umferðarlagabrotum um 4% frá árinu 2000 sem getur komið til af því að brotum vegna aksturs gegn rauðu ljósi og ölvunaraksturs fækkaði nokkuð frá fyrra ári. Í einstökum brotaflokkum var fjölgun, svo sem að útbúnaði ökutækja var áfátt, ökutæki ekki færð í skoðun eða að ökumenn höfðu ökuskírteini ekki meðferðis. Hraðakstursbrotum fjölgaði um 32% sem skýrist að hluta til af því að tvær löggæslumyndavélar bættust við á árinu.

Auðgunarbrotum fækkaði um 1% frá fyrra ári en innbrotum fjölgaði (22%). Eins og á síðasta ári áttu flest innbrot sér stað við bílastæði eða bílageymslu og um 20% á heimilum eða einkalóð. Þjófnuðum fækkaði um 9% en um þriðjungur þjófnaða var í verslunum. Fjöldi rána er svipaður og síðustu tvö árin og flest eiga þau sér stað í og við miðborgina og um 52% í verslunum.

Fíkniefnabrotum fjölgaði um 13% frá árinu 2000, vegna innflutnings um 20% og vegna vörslu og neyslu fíkniefna um 5%. Mikið magn fíkniefna var haldlagt árið 2001 og hefur til að mynda aldrei verið haldlagt jafnmikið magn af e-töflum hér á landi. Þegar haldlagnir eru skoðaðar sést að algengast var að lögreglan legði hald á hass, síðan amfetamín og tóbaksblandað hass þó hald hafi verið lagt á mun meira magn af e-pillum nú en í fyrra. Í flestum tilfellum fundust fíkniefni innanklæða eða innvortis á einstaklingum.

Fjöldi ofbeldisbrota hefur verið svipaður síðustu þrjú árin en fjölgun er að sjá í alvarlegri líkamsárásum. Meira en helmingur tilkynntra brota gerðist í og við miðborgina og um fjórðungur á veitingahúsum, skemmtistöðum eða hótelum sem er svipað og á síðasta ári. Auk þess má sjá að meira var tilkynnt um ofbeldisbrot um helgar en aðra daga vikunnar.

Tilkynntum kynferðisbrotum fjölgar ár frá ári og voru þau 136 árið 2001 en 111 árið 2000.

Ársskýrsluna er hægt að nálgast á heimasíðu lögreglunnar www.lr.is auk þess sem hún er seld í afgreiðslu embættisins á 1000 kr. Nánar upplýsingar veita Karl Steinar Valsson (s. 569-9080)  og Jóhanna Rósa Arnardóttir (s. 569-9281) hjá forvarna- og fræðsludeild lögreglustjórans í Reykjavík.