25 September 2019 13:04

Enginn hörgull var á verkefnum hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu árið 2018 og máttu starfsmenn hennar hafa sig alla við. Mun fleiri mál komu til meðferðar hjá embættinu en að meðaltali síðustu þrjú árin á undan og munaði um minna. Af því leiddi að höfð voru afskipti af mun fleiri einstaklingum en áður, en alls fjölgaði viðfangsefnum lögreglu um rúmlega fjórðung. Málin voru af öllum toga, en flest teljast hefðbundin eins og líkamsárásir, innbrot og nauðganir svo fátt eitt sé nefnt. Hegningarlagabrotum fjölgaði annars um 3% á milli ára og sérrefsilegabrotum um 4%. Umferðarlagabrotum fjölgaði hins vegar mun meira, eða um 15%. Þrátt fyrir fjölgun brota voru víða jákvæð teikn á lofti, t.d. við rannsóknir mála hjá embættinu, og tókst að færa ýmsa hluti til betri vegar.