17 Júlí 2003 12:00
Ársskýrsla lögreglustjórans í Reykjavík fyrir árið 2002 hefur verið gefin út. Þar er leitast við að koma á framfæri upplýsingum um skipulag og starfsemi innan embættisins á síðastliðnu ári, kynna nýjungar í starfi og koma á framfæri fyrirliggjandi upplýsingum um brotaþróun.
Rekstrarstaða embættis lögreglustjórans í Reykjavík reyndist neikvæð í lok ársins 2002 sem nam 40 milljónum króna. Rekstrarstaða ársins 2001 var hins vegar jákvæð um 13 milljónir króna. Lögreglumönnum fjölgaði aðeins frá fyrra ári og var því takmarki náð að hafa hverfislögreglumenn í öllum hverfum umdæmisins. Verkefnin voru næg enda íbúafjöldi 123.685 í umdæminu. Í lok ársins voru því 437 íbúar á hvern lögreglumann. Auk hefðbundinna löggæslustarfa var viðamiklum verkefnum sinnt svo sem öryggisgæslu vegna NATO-fundarins og heimsóknar forseta Kína til landsins.
Rannsóknir mála eru stór þáttur í starfseminni. Samkvæmt málaskrá lögreglu var heildarfjöldi brota og rannsóknarverkefna árið 2002 52.462 og kærðir einstaklingar 21.444. Stærsti brotaflokkurinn eru umferðarlagabrot og fjölgaði þeim um 23% frá fyrra ári. Hraðakstursbrot voru 11.029 eða 41% fleiri en í fyrra. Aukið eftirlit með löggæslumyndavélum skýrir að hluta til þessa fjölgun. Eins og fyrri ár þá er unga fólkið, 20 ára og yngri, sem braut oftast af sér í umferðinni. Einnig má sjá að eftir 50 ára aldur dregur verulega úr hraðakstursbrotum. Um 13% færri voru grunaðir um ölvun við akstur árið 2002 í samanburði við 2001. Talið er að átak gegn ölvunarakstri sem lögreglan stóð fyrir í desember hafi skilað árangri.
Auðgunarbrotum fjölgaði um tæp 3%, innbrotum um 13% en þjófnuðum og ránum fækkaði. Um þriðjungur innbrota átti sér stað við bílastæði en um 20% í íbúðarhúsnæði eða einkalóð. Innbrotum í bíla hefur fjölgað en innbrot á heimili hafa staðið í stað frá fyrra ári. Tæplega helmingur þeirra sem kærðir voru fyrir innbrot eða þjófnaði árið 2002 var 20 ára eða yngri. Alls voru framin 26 rán af 34 einstaklingum. Yngsti brotamaðurinn var 13 ára en meðalaldur kærðra var 21,4 ár. Um 46% rána áttu sér stað í verslunum og um helmingur þeirra í og við miðborgina.
Fíkniefnabrotum fjölgaði um 24% frá fyrra ári. Mestu munar þar um fjölgun brota vegna vörslu og neyslu fíkniefna og vegna framleiðslu. Alls voru 407 einstaklingar kærðir. Um 36% kærðra voru 20 ára eða yngri og 41% voru 2130 ára. Mikið magn af fíkniefnum var haldlagt á árinu, svo sem 55,9 kg af hassi í 212 skipti, 6,4 kg af amfetamíni í 151 skipti, 470 e-pillur í 33 skipti og 1,8 kg af kókaíni í 31 skipti. Fjórir menn voru handteknir fyrir innflutning á um 30 kg af hassi og var það stærsta fíkniefnamál ársins. Í flestum tilvikum fundust fíkniefni innanklæða eða innvortis á einstaklingum. Hins vegar uppgötvast hlutfallslega flest brot vegna innflutnings fíkniefna við komuna til landsins, þá annaðhvort með flugfarþegum eða með pósti.
Ofbeldisbrotum fækkaði um 14% frá árinu 2001 og er mest fækkun í alvarlegri líkamsárásum. Manndráp voru 4 árið 2002 og hafa þau ekki verið fleiri í umdæminu sl. 30 ár. Um 58% ofbeldisbrota áttu sér stað í hverfi 101. Tilkynnt var um 50% ofbeldisbrota á laugardegi eða sunnudegi. Alls voru 569 einstaklingar kærðir, 86% voru karlar en 14% konur. Meðalaldur kærðra var 28,9 ár, tíðasti aldur 18 ár og um 65% voru 30 ára eða yngri.
Kynferðisbrotum fjölgaði frá 2001 um 19%, tilkynnt var um 39 nauðganir, 23 misneytingar, 23 kynferðisbrot gagnvart börnum, þrjú sifjaspellsmál, eitt vændismál og 29 brot gegn blygðunarsemi. Meðalaldur kærðra var um 10 árum hærri en meðalaldur kærenda sé miðað við fyrstu sex mánuði ársins 20002002.
Alls voru 2.318 einstaklingar handteknir og 1.585 gistu fangageymslur lögreglu. Fjöldi fyrirkalla og fullnustuverka voru 12.987 og voru gefnar út 1.047 ákærur vegna 2.048 brota árið 2002.
Ársskýrsluna er hægt að nálgast á heimasíðu lögreglunnar http://www.lr.is auk þess sem hún er seld í afgreiðslu embættisins að Borgartúni 7b. Nánari upplýsingar veitir Jóhanna Rósa Arnardóttir (s. 569-9281 eða johanna.rosa@lr.is) hjá forvarna- og fræðsludeild lögreglustjórans í Reykjavík.