7 September 2017 15:30
Samstarfsverkefni lögreglunnar og sveitarfélaganna, þar sem ráðist var í átak gegn heimilisofbeldi, hefur vakið verðskuldaða athygli út fyrir landsteinana, en fjallað er sérstaklega um samstarfið og mikilvægi þess í nýútkominni skýrslu Efnahags- og framfarastofnunar Evrópu (OECD) þar sem framúrskarandi nýsköpunarverkefni eru kynnt. Efnahags- og framfarastofnunin valdi íslenska samstarfsverkefnið jafnframt sem fyrirmynd af því hvernig hægt er að breyta rótgrónu kerfi til hins betra. Slíkt er hvorki auðvelt né sjálfsagt og því eru þeir sem að samstarfsverkefninu komu afar ánægðir með árangurinn fram til þessa.
Í skýrslunni er greint frá því hvernig lögreglan og sveitarfélögin tóku upp nýtt verklag í þessum málaflokki og sendu þau skilaboð að heimilisofbeldi er ekki liðið. Verklagið var upphaflega þróað á Suðurnesjum og tekið upp í framhaldinu hjá öðrum lögregluyfirvöldum. Í byrjun árs 2015 hófst innleiðing og þróun verkefnisins hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og hefur það nú fengið alþjóðlega viðurkenningu.